Það reynist sumum vefstjórum erfitt að sinna markaðsmálum samhliða vefstjórastörfum. Þar spilar inn í að vefstjórar eru gjarnan “introvertar” og markaðsstarf krefst þess að þeir séu “extrovertar”. Ég held að það gildi um stóran hluta vefstéttarinnar að hún vill vinna sín verk í friði og kallar ekki á athygli. En öðru máli gildir um vefinn. Hann kallar á athygli. Hvað er til ráða?
Þú getur litið á vefinn þinn eins og búðarglugga. Ef þú opnar nýja verslun þá geturðu búist við að nokkrir ráfi inn til þín en þeir verða aldrei margir nema þú komir versluninni á framfæri. Það sama gildir um vefinn. Þú verður stöðugt að minna á hann til að fá heimsóknir.
Hinum kvíðafulla vefstjóra til huggunar þá vek ég athygli á að markaðsstarf fyrir vefinn fer að stórum hluta fram fyrir utan kastljósið. Þó mikilvægt sé að fanga athygli fjölmiðla, koma sér á framfæri með fyrirlestrum og kynningum, stækka tengslanetið og stunda ákveðna sölumennsku þá eru aðrir þættir veigameiri í markaðsstarfi fyrir vefinn.
Fjórir megin þættir eru að mínu mati mikilvægastir í að koma vef á framfæri:
Aðrir þættir eins og að koma vefnum að í vefborðum, auglýsingum í öðrum miðlum, kynningarefni og nafnspjöldum skipta einnig máli en eru að öllu jöfnu ekki jafn skynsöm fjárfesting. Ein heilsíðuauglýsing í dagblaði getur t.d. jafnast á við mánaðarvinnu í þrotlausum skrifum fyrir vefinn í kostnaði og fyrir sambærilega fjárhæð í netauglýsingum gætirðu náð mörgum sinnum til allra íslensku þjóðarinnar!
Leiðtogar í markaðsmálum eins og Seth Godin (Purple Cow, Permission Marketing) og David Meerman Scott (New Rules of Marketing and PR) hafa lengi talað fyrir nýrri nálgun í markaðssetningu og nauðsyn þess fyrir markaðsfólk að tileinka sér ný vinnubrögð og byrja á að taka vefinn alvarlega. Það eru nefnilega komnar nýjar reglur.
Það er liðin tíð að markaðssetning á netinu snúist um að gera borða sem reyna að gabba notendur inn á vefinn. Hún snýst mun frekar um að þekkja orðin sem mögulegir kaupendur nota og setja í gang litlar herferðir t.d. á Facebook eða Google sem fær fólk inn á vefi og kemur með efni sem mætir væntingum þeirra.
Á vefnum þarf að vera áreiðanlegt og vel skrifað efni sem upplýsir væntanlegan viðskiptavin en truflar hann ekki. Efni á góðum vef er verðmætt og frumlegt í samanburði við markaðsskilaboð sem sjást á svo mörgum vefjum sem eru almenn og eiga að höfða til allra.
Það kannast örugglega margir við að ljómandi gott efni, færsla eða grein hafi ekki náð neinni dreifingu en annað efni sem hefði mátt halda að væri ekki jafn eftirsóknarvert fer á flug. Munurinn getur legið í hvaða dag og hvenær dagsins efnið fór út.
Justin Jackson hefur náð eftirtektarverðum árangri í sínum greinaskrifum og mikilli útbreiðslu m.a. með færslunni This is a web page. Hann nefnir að tímasetning sé lykilatriði og gefur eftirfarandi leiðbeiningar:
Mér hefur reynst best að gefa út greinar á sunnudögum þannig að áskrifendur póstlistans fái þær í býtið á mánudegi. Einnig hefur mér fundist best að vekja athygli á greinum á Facebook og Twitter á kvöldin, eftir að börnin eru sofnuð. Þá virðist minn markhópur vera duglegur að lesa og fylgjast með. Einnig hef ég reynt að stíla inn á að skrifa um efni sem er í deiglunni. Gerði t.d. úttekt á vefjum stjórnmálaflokkanna vorið 2013 og sú grein er önnur mest lesna greinin sem ég hef birt á vefnum. Það var ekki síst að þakka umfjöllun á mbl.is sem var sömuleiðis mjög jákvætt fyrir stöðu vefsins í leitarvélum.