Upplýsingamengun frá grunnskólum í kortunum

Höfundur
Dagsetning
16. ágúst 2025
Höfundur
Dagsetning
16. ágúst 2025

Í lok ágúst mæta börnin okkar í grunnskóla landsins. Eftirvæntingin er víða mikil, ekki síst hjá yngstu krökkunum og líklega ekki síðri hjá foreldrum sem fá loksins reglu á líf sitt eftir sumarið. 

Um leið og margir foreldrar gleðjast yfir upphafi skólagöngu bera sumir kvíðboga fyrir vetrinum og einn þeirra er undirritaður. Áhyggjuefnið er hvernig eigi að bregðast við yfirvofandi upplýsingamengun. 

Kennarastarfið og námið

Kennarastarfið er vanmetið starf og verður stöðugt flóknara. Verkefnum fjölgar, aukin krafa er um samskipti við foreldra, kennurum er ætlað uppalandahlutverk sem áður var á hendi foreldra, nemendahópar eru ekki lengur einsleitir, við rekum skóla án aðgreiningar, nemendur hafa ólíkan bakgrunn, tala ólík tungumál, hafa mismunandi menningu og hefðir.  Þessi þróun hefur skapað fjölþættar áskoranir sem valda auknu álagi á kennara. 

Auk þessara verkefna þurfa kennarar og stjórnendur í grunnskólum að miðla upplýsingum og mikið af þeim. 

Kennarar, ekkert frekar en aðrir, geta ekki verið sérfræðingar í öllu. Námið undirbýr þá auðvitað vel fyrir kennsluna, fræðin á bak við kennslu, læsi, samskipti barna, miðlun og upplýsingatækni með börnum svo það helsta sé nefnt. 

Hvað með miðlun og samskipti við foreldra? Er það kennt í náminu? Miðað við kennsluskrá HÍ þá virðist svo ekki vera. Ekki frekar en að í læknisfræði sé fjallað um upplýsingamiðlun og samskipti við sjúklinga. Þetta er vanmetinn þáttur í mörgum störfum. Galli er að við fæðumst ekki með þessa þekkingu.

Ómarkviss upplýsingamiðlun

Þegar foreldrar stinga saman nefjum um málefni grunnskólans finnst mér tvennt taka yfir umræðuna. Annars vegar einkunnagjöfin sem fæstir botna í en mikil umfjöllun hefur orðið um þann þátt eftir að skipt var í umdeilt bókstafakerfi. Hins vegar er það áreitið í skilaboðum frá skólanum. Það sem ég vil kalla upplýsingamengun en á næstu vikum get ég búist við að fá tugi tölvupósta og fjölda skilaboða í Mentor appinu.

Af hverju upplifa foreldrar þessi skilaboð sem áreiti frekar en upplýsandi miðlun um málefni skólans og barnanna? Vandinn er held ég að mestu tvíþættur. 

  • Kennarar hafa almennt ekki fengið þjálfun eða fræðslu um markvissa upplýsingamiðlun
  • Verkfæri kennara er víðast InfoMentor sem er fjarri því að styðja við góða framsetningu skilaboða, hvorki í tölvupóstum né appinu

Ég hef ekki kannanir til að styðjast við en mín tilfinning er að stór hluti foreldra fari á mis við skilaboð frá skólunum sem verður til þess að það er léleg mæting á foreldrafundi, börnin mæta ekki í grænum sokkum á tilteknum degi eða koma með samloku með kæfu í skólann þegar mátti mæta með sparinesti.

Ástæðan er ekki sú að upplýsingar berist ekki. Nei vandinn er að upplýsingum er miðlað á þann hátt að foreldrar, margir hverjir, hafa gefist upp á að lesa og fylgjast með. Þeir fara frekar á spjallrásir með öðrum foreldrum til að leita svara við sínum spurningum og fara mögulega á vefi skólanna. Vefir skólanna eru svo annar kapítuli sem ég vík aðeins að hér á eftir. 

PDF blætið og ofhlaðnir vefir

Hluti vandans er að grunnskólarnir eru með alvarlegt pdf  og viðhengjablæti sem þarf að vinna bug á. Stór hluti pósta sem foreldrar fá eru með stuttum texta en svo fylgja gjarnan viðhengi á pdf sniði eða jafnvel Word. Foreldrum er enginn greiði gerður með þessu. 

Viðhengin bæta stundum litlu eða engu við skilaboðin. Mjög líklega eru flestir að skoða skilaboðin í símanum og það er ekki hvetjandi að opna pdf hvað þá Word skjal (margir hafa ekki forritið uppsett) á litla skjánum.

Vefir skólanna gegna auðvitað hlutverki í upplýsingamiðlun til foreldra. Því miður er æði algengt að þessir vefir séu lítið uppfærðir og ofhlaðnir efni og pdf skjölum sem svo til enginn les. Við sem þekkjum til vefmiðlunar skólanna vitum að foreldrar sækja nær eingöngu þrennt á vefi skólanna: 

  • skóladagatal
  • matseðil
  • netföng og/eða símanúmer

Næst þar á eftir eyðublað fyrir leyfi fyrir Tenerife ferðum og annarri lengri fjarveru (sem skólarnir eru sérlega umburðarlyndir gagnvart).

Alltof mikill tími fer í að miðla upplýsingum og halda við efni sem enginn eða í öllu falli mjög fáir sækja.  Vefir grunnskóla er efni í annan pistil en eitt atriði verður að minnast á. 

Skóladagatöl verða að brjótast út úr pdf skjalinu sem ómögulegt er að þysja út í litlum skjá. Það eru engin geimvísindi að koma skóladagatalinu inn á því formi að foreldrar geti sótt það og bætt við eigið dagatal. Google Calendar getur t.d. auðveldlega leyst vandann.

Vöndum heiti á tölvupóstum

Heiti (Subject) á tölvupóstum skiptir miklu máli um hvort póstur sé opnaður eða ekki. Ég skal taka nokkur dæmi sem ég fékk frá skóla barnanna minna í ágúst 2024 um slæm heiti:

  • Hagnýtar upplýsingar fyrir skólaárið 2024-2025 
    – Reyndist vera pdf skjal með upplýsingum um skólamáltíðir
  • Mentor upplýsingar
    – Reyndist vera ein setning um Mentor appið og pdf skjal með illa framsettum upplýsingum í mörgum litum um notkun á Mentor
  • Stuttar fréttir úr Víðistaðaskóla
    – Reyndist vera ein setning og hlekkur í fréttabréf sem virkaði varasamur – sway.cloud.microsoft…. – átti ég að treysta þessum hlekk? Reglulegt fréttabréf sent síðdegis á föstudegi að laugardagsmorni
  • Föstudagspóstur 6. september
    – Auk almennra upplýsinga um upphaf skólastarfs voru þetta tvö pdf skjöl með mikilvægum upplýsingum um heimalestur sem hefði mátt koma fram í heiti, betra heiti hefði t.d. verið: Föstudagspóstur: Heimalestur og upphaf skólastarfs
  • Ágætu foreldrar og forráðamenn grunnskólabarna
    – Hættu nú! Svona heiti segir nákvæmlega ekkert. Þarna voru svo skilaboð um skólamat, hefði þá átt að vera Skólamatur í vetur. Sami texti og fylgdi með í póstinum var líka á pdf með fínni undirritun starfsmanns á skólaskrifstofu sem skipti að sjálfsögðu engu máli
  • Bréf til foreldra og forráðamanna
    – Mjög lítið lýsandi heiti og þarna var á ferðinni eitt pdf viðhengi sem fjallaði um skólamat
  • rarræna lestrarskjalið
    – Okkur verður öllum á mistök í tölvupóstsendingum en þetta var smá óheppilegt og svo var bara einn hlekkur á Google Docs skjal með skráningu á lestri sem reyndist svo vera læst

Það er ósanngjarnt að taka aðeins dæmi þar sem hefði mátt gera betur því auðvitað berast póstar þar sem heitið er mjög lýsandi, skilaboðin markviss og viðhenginu er sleppt. Hér eru nokkur dæmi sem ég opnaði að sjálfsögðu:

  • Útiskór í skólanum ekki leyfðir
    – Segir allt sem segja þarf. Vel gert. Skýrt og hnitmiðað. Ekkert pdf skjal.
  • Lestrarátak í 8.-10.bekk í Víðistaðaskóla
    – Skýrt og hnitmiðað, að vísu pdf skjal en gagnlegt efni
  • Bólusetning í 7. bekk nk. mánudag
    – Skýrt og upplýsandi frá hjúkrunarfræðingi

Eru fréttabréfin tímaeyðsla?

Í lok viku og reglulega yfir veturinn senda umsjónarkennarar, deildarstjórar og jafnvel skólastjóri foreldrum fréttabréf. Þetta eru oft viðamikil fréttabréf sem greinilega er lögð mikil vinna í. Fyrir þá sem opna fréttabréfin er þetta oft upplýsandi og skemmtilegt. En aðeins fyrir þá sem opna þau. 

Það sem kennarar þurfa að hafa í huga er að í lok vinnuviku og gjarnan undir kvöld á föstudegi þá er forgangsröðunin orðin önnur hjá foreldrum. Það er ekki að marka mig, ég er það samviskusamur og meðvirkur að ég get ekki annað en opnað og rennt yfir fréttabréfið jafnvel þó ég sé kominn á haus í pizzabakstur föstudagsins. 

Mig grunar þó að ég sé í minnihluta og svona fréttabréf séu frekar litið lesin. Það er synd því kennarar verja miklum tíma í skrifin og uppsetningu. Stundum koma mjög mikilvægar upplýsingar sem allir ættu að lesa, t.d. foreldrafund eða vettvangsferð. 

Ég set spurningamerki við þá vinnu sem fer í þessi fréttabréf. Vita kennarar hvort þessi fréttabréf séu lesin? Er álagið ekki nægilega mikið á kennara en að þeir fari ekki að enda útkeyrðir í lok vinnuviku á því að setja upp og skrifa svona fréttabréf þegar stuttur og hnitmiðaður tölvupóstur eða skilaboð í appi hefði verið nóg? 

Alls konar hugbúnaður er í notkun til að setja upp fréttabréf en Sway og Smore eru algeng. Tengill á þau virkar stundum grunsamlegur og á tímum óvissu um öryggi okkar á netinu eru foreldrar á varðbergi og smella ekki á hvað sem er.

Hvernig getum við breytt þessu?

Af þessum skrifum ætti lesanda að vera ljóst að þessi hluti kennarastarfsins er ómarkviss í besta falli. Foreldrar barna í grunnskólum (ég á tvö) upplifa mikið áreiti og óskipulag í upplýsingamiðlun skólanna. 

Kennurum og öðru starfsfólki skólanna er sannarlega vorkunn því þeir fá ekki almennilegt verkfæri til að miðla skilaboðum. Flest skilaboð eru send í gegnum InfoMentor sem verður seint verðlaunað fyrir að vera notendavænt, hvorki fyrir þann sem vinnur í kerfinu né þá sem eru viðtakendur skilaboð og eru með Mentor appið. 

Framsetning efnis úr Mentor er einstaklega óspennandi, forritið er með einhvers konar Notepad ritil þar sem engin útlitsmótun eða áherslur eru í boði. Allt rennur saman í eitt. 

Útlitsmótun og uppbygging á texta er afar mikilvæg til að hún komist til skila. Kennarar þurfa að fá fræðslu og þjálfun í að hanna texta þannig að hann komist til skila. Hér eru nokkur atriði sem þarf að hafa til hliðsjónar en það þarf að:

  • vera með skýrar fyrirsagnir
  • koma aðalatriðum að í inngangi
  • skrifa stuttar setningar
  • hafa stuttar efnisgreinar
  • nota lista
  • feitletra mikilvægan texta
  • forðast viðhengi (nema þau séu ómissandi)
  • hafa tengla í textanum frekar en heilar vefslóðir
  • brjóta upp lengri texta með millifyrirsögnum

Þá komum við að hindrun í að leysa vandamálið en það er hugbúnaðurinn, Mentor, sem styður ekki við þessa miðlun. Skilaboð sem eru send úr Mentor koma gjarnan sem stórar textablokkir án þess að það sé nokkur áhersla eða kaflaskipting með fyrirsögnum. Engar feitletranir, engar millifyrirsagnir, engir punktar (bullets) og hlekkir koma inn í fullri lengd vefslóðar í stað þess að vera smellanlegir úr texta.

Mig grunar því miður að  það séu ekki breytingar í vændum hjá InfoMentor sem mun styðja við þessar nauðsynlegu breytingar. 

Við vitum að það er til mun betri hugbúnaður þarna úti sem er notendamiðaður. Það þarf kjark til að breyta og hugsa hlutina upp á nýtt. Við þurfum ekki alltaf að gera hlutina eins og við höfum alltaf gert þá. 

Skólayfirvöld verða að huga að nýjum lausnum til að styðja við þessar breytingar og koma fræðslu til kennara og starfsfólks skólanna um markvissa upplýsingamiðlun.

Viltu deila þessari færslu?

Fleiri færslur