Er vefurinn dauður? Aftur?

Höfundur
Dagsetning
júlí 25, 2025
Lestrartími
11 min
Höfundur
Dagsetning
24. júni 2025
Lestrartími
11 min

Vefurinn stendur á tímamótum. Og ekki í fyrsta sinn. Virtir miðlar skrifa um dauða vefsins. Núna vegna þróunar á gervigreind. Áður voru það samfélagsmiðlar sem áttu að ganga af vefnum dauðum. Og enn fyrr voru það öppin sem áttu að ganga frá vefnum.

Fyrri dómsdagsspár rættust augljóslega ekki en hvað með þessa nýjustu? Við lifum á stórkostlegum breytingatímum. Þróunin er svo ör í gervigreind að við náum tæplega að fylgja henni. Það sem virtist útópía fyrir nokkrum misserum er veruleiki í dag.

Ég hef fylgt þróun vefsins frá árinu 1996 eða í tæp 30 ár. Á þessum tíma hafa vitaskuld átt sér stað miklar breytingar en engar í líkingu við það sem við erum að verða vitni að í dag.

The World Wide Web - illustration from The Economist
Teikning eftir: Nick Little – The Economist

Hið virta tímarit The Economist, sem ég er áskrifandi að, fjallaði um gervigreind og dauða vefsins i ritstjórnargrein og ágætri grein í nýjasta tölublaðinu (19-25th July). Umfjöllun var einnig í hlaðvarpi tímaritsins. Ég tek mark á skrifum The Economist um stjórnmál, alþjóðamál, viðskipti, menningu og tækniþróun. Svo það var ekki annað hægt en að staldra aðeins við og hugsa.

Stafræn þróun er vinnan mín. Ég vinn við slíka ráðgjöf sem felst m.a. í að sannfæra fyrirtæki og stofnanir um að fjárfesta í vefnum. Orðspor mitt er það eina sem ég á. Fari ég gegn óvefengjanlegum spám um þróun vefsins og mögulegum dauða hans þá eru mín ráð einskis virði og jafnvel skaðleg.

Svo ég verð að staldra við. Ég get byrjað á því að minna mig á að fyrri dómsdagsspár gengu ekki eftir. En hversu sannfærandi eru spárnar í dag um dauða vefsins?

Jú tölurnar tala sínu máli og ég er mikill aðdáandi gagna. Það er óumdeilt að gervigreindin er að taka væna sneið af internetkökunni.

Sögnin að gúggla sem hefur fest sig í sessi lýsir dæmigerðri hegðun notenda í upplýsingaleit. Fólk byrjar að gúggla áður en því dettur í hug að heimsækja einhvern tiltekinn vef. Þaðan fara svo flestir og enda á vefsíðu fyrirtækja þar sem flestir fá vonandi lausn sinna mála með svörum eða sinna eigin sjálfsafgreiðslu.

Stóra breytingin í dag með gervigreind á borð við ChatGPT eða Gemini er að við spjöllum við gervigreindina, hún veitir okkur svör í formi nokkurs konar samtals sem getur svo spunnið áfram og skilur notendur yfirleitt eftir sátta og rúmlega það. Málið sem þurfti að leysa er afgreitt og engin ástæða til að skoða einhvern vef. Google leitarvélin er meira að segja farin að veita manni fyrstu svör með yfirliti frá eigin gervigreindarmódeli Gemini.

Þannig að gervigreindin er að breyta því hvernig fólk vafrar. Þetta er enginn smá hópur en samkvæmt fyrirtækinu OpenAI sem rekur ChatGPT eru notendur þess um 800 milljónir! ChatGPT er aðeins eitt þessara gervigreindarmódela en sannarlega stærst. Og þessi hegðun er að breyta markaðnum í heild sinni.

Vefurinn þarf nýtt tekjumódel

Tekjumódel fyrirtækja sem byggði á að fá sem flestar heimsóknir á vefinn er í sumum tilfellum að verða fyrir stóru áfalli. The Economist tilgreinir sérstaklega síður sem fjalla um heilsu eru að fá 31% færri heimsóknir en áður á þessu ári, heimildasíður eins og Wikipedia eru að fá 15% færri heimsóknir og vísinda og menntasíður eru að fá 10% færri heimsóknir.

Eigendur gervigreindarmódelanna eru sökuð um að taka öll gögn á netinu án greiðslu og maka krókinn sjálf meðan fyrirtækin sem eiga vefina og fá ekki lengur heimsóknir í sama mæli þjást. Samningsstaðan er ekki heldur góð. Það væri hægt að loka fyrir aðgang bottanna sem gervigreindarmódelin keyra en það þýðir þá að efnið á þeim vefjum verður ósýnilegt fjöldanum. Og þá er kannski fokið í flest skjól. Þessi bylting kallar því á breytt tekjumódel, mögulega áskriftir í auknum mæli, læstar síður fyrir áskrifendur, framleiða frekar efni sem myndefni en texta og leggja höfuðið virkilega í bleyti.

Hvað þýðir þetta fyrir hinn dæmigerða íslenska vef (og marga viðskiptavini Fúnksjón) sem eru kannski ekki að búa til endilega beinar tekjur en finna fyrir harkalegri fækkun heimsókna? Hvernig skal bregðast við? Efnið þarf eftir sem áður að vera til staðar og það þarf að vera vandað til að tróna á toppi niðurstaðna sem fólk fær í spjalli við gervigreindina. Það getur verið tækifæri í að byggja upp eigið gerivgreindarsnjallmenni sem nýtir eingöngu gögn af eigin vefsvæðum og gagnagrunnum.

Hefðbundin leit á vef fyrirtækis er e.t.v. að líða undir lok. Uppbygging vefs í skipulögðum valmyndum og veftré er mögulega að tapa verðmæti sínu. Sífellt færri feta þá leið að upplýsingum. Eru dagar flokkunaræfingarinnar (e. card sorting) taldir?

Dauði netspjalls, spjallmennis og núverandi leitar

Vefir í dag verða að mæta væntingum notenda. Þeir eru orðnir góðu vanir. Tiltrú á leit á fyrirtækjavefjum hefur ekki alltaf verið mikil. Fólk hefur gúgglað frekar og endar þá mögulega á síðu á vef fyrirtækisins eða ekki.

Öflugir þjónustuvefir eða upplýsingavefir þurfa að bregðast við. ChatGPT gerir hugbúnaðaraðilum kleift að smíða eigin snjallmenni sem fyrirtæki eru farin að nýta sér. Ég tek dæmi af mínum gamla vinnustað, Hafnarfjarðarbæ, sem setti slíka lausn í loftið í vor.

Líkleg næstu skref eru að hefðbundin leit á vef mun víkja fyrir gervigreindarlausn. Þetta þýðir líka að öllum líkindum dauða hefðbundins netspjalls og spjallmennis sem ýmsar stofnanir, bankar og alls konar þjónustufyrirtæki hafa innleitt. Spjallmenni með handmötuðum upplýsingum og þjálfun er að mestu glötuð fjárfesting eins og staðan er í dag. Slíkt spjall mætir engan veginn væntingum notenda.

Efnið verður eftir sem áður að vera gott, gott gervigriendarmódel skilar ekki gæðaefni til sinna notenda ef hráefnið er slæmt. „Rusl inn, rusl út” eins og sagt er. Mun þetta gæðaefni svo mögulega verða til með aðstoð gervigreindar? Það er ekki ólíklegt. Og það er á margan hátt mjög sorglegt. Rithöfundum, þýðendum, efnishöfundum og textasmiðum stendur veruleg ógn af gervigreindinni. Um það þarf að fjalla sérstaklega um síðar.

Ég tek ekki undir óttann um dauða vefsins. Hann á klárlega sinn tilverurétt og verður áfram hráefnið sem gervigreindin matreiðir okkur með svörum á. Margir vefir munu í bráð og lengd finna fyrir tekjumissi. Þá þarf að leita nýrra leiða til að afla tekna. Án efa getur gervigreindin sjálf hjálpað til að finna þær leiðir.

Eftirmáli: Áhugaverð umræða á sér stað á Linkedin um efni greinarinnar eftir að ég deildi henni þar. Hvet áhugasöm til að skoða.

Viltu deila þessari færslu?

Fleiri færslur