Það er talað um hveitibrauðsdaga hjá fólki sem tekur við nýjum embættum nú eða ríkisstjórnum. Þetta er tími þar sem þér gefst tækifæri á að fóta þig á nýju svelli.

Þessa dagana eru um það bil 100 dagar frá því að Sigurjón Ólafsson gekk í síðasta sinn út úr Ráðhúsi Hafnarfjarðar í Strandgötu sem bæjarstarfsmaður.

Það verður ekki annað sagt en að fólk og fyrirtæki hafa farið mildum höndum um mig þessa upphafsdaga.

Í aðdraganda breytinganna og í byrjun á nýju upphafsskeiði Fúnksjón gerði ég mikið af því að hitta fólk úr alls konar fyrirtækjum og endurvekja gömul kynni með fólki sem ég met mikils úr bransanum. Ég fékk fjölmörg boð um kaffihittinga og ég hnippti í nokkuð marga úr mínu stóra tengslaneti.

Það skal þó tekið fram áður en lengra er haldið að Fúnksjón er ekki nýtt fyrirbæri. Ráðgjöfin hóf starfsemi árið 2013 og er með kennitölu frá árinu 2014 (byrjaði á eigin kennitölu). Þó starfsemin hafi legið í dvala í 5 ár og gott betur þá vildi ég aldrei leggja félagið niður. Vissi líklega að ég myndi hverfa aftur í ráðgjöfina fyrr en síðar. Ég er nefnilega svona 5 ára maður. Þarf að breyta til á um það bil fimm ára fresti.

Ímynduð bjalla sem hringir í höfðinu á fimm ára fresti

Ég hóf störf sem sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar árið 2019 og fékk að leiða þar stafræna umbreytingu og móta nýtt svið. Fyrir það verð ég alltaf þakklátur. Ég vann með ótrúlega hæfileikaríku fólki, fékk tækifæri til að ráða til mín öfluga stjórnendur, náði að virkja starfsfólk, tengslanetið og búa til öfluga liðsheild sem skilaði miklum árangri. Til að gera langa sögu stutta þá hringdi þessi ímyndaða bjalla í höfðinu á mér og skipaði mér að leita á ný mið.

Í raun var ég kominn með hausinn annað árið 2023, eða þegar fjögur árin voru að nálgast, kannski full snemmt en með biðleik sem fólst í að flytja til Madridar með fjölskylduna og elta gamlan draum um að búa erlendis gat ég skoðað málin úr fjarlægð. Ég vann fyrri helminginn af tímanum í fjarvinnu fyrir Hafnarfjarðarbæ og á seinni helmingnum dustaði ég rykið af Fúnksjón og vann nokkur ráðgjafaverkefni.

Ég velti alveg fyrir mér að sækja um hin og þessi störf. Sótti meira að segja um tvö störf en fékk bakþanka í báðum tilvikum og dró umsóknir til baka. Átti í þreifingum við eitt ráðgjafafyrirtæki um að koma til starfa en það þurfti eitthvað meira til.

Snemmsumars þegar ég var farinn að undirbúa heimkomu frá Madrid auglýsti Stafrænt Ísland útboð fyrir ráðgjafa. Ég hugsaði nú með mér að það sakaði ekki að skoða það hvað sem yrði. Þegar ég sá útboðsskilmála þá var mér ljóst að ég gæti líklega hent inn tilboði án stórkostlegrar fyrirhafnar því ég átti megnið af þeim gögnum, sem beðið var um, í handraðanum eftir Fúnksjón árin. Regluleg skrif á vefinn, verkefnasögur, samningar sem ég hafði gert og gott bókhald varð til þess að ég gat með tiltöulega lítilli fyrirhöfn sent inn tilboð. Ég heyrði frá kollegum sem tóku líka þátt að þeir hefðu eytt verulegum tíma í að taka saman og skila inn gögnum. Þá fékk ég á tilfinninguna að ég hefði nú kannski mátt vanda betur til og yrði líklega ekki með bestu umsóknina. Enda hugsaði ég þetta þannig að það yrði nú enginn skaði þó ég næði ekki alla leið í gegn. Að sjálfsögðu taldi ég mig eiga góða möguleika þrátt fyrir að sleppa billega með vinnu við umsókn. Ég hafði jú hátt í 25 ára reynslu af verkefnum sem verið var að leita að ráðgjöfum í.

Dúxinn í útboðinu með 8,6 í einkunn

Svo leið og beið. Heimkominn til Íslands, kominn í gang með verkefnin í Hafnarfirði og ég var að mestu hættur að spá í þetta þar til vinur minn og kollegi hringdi. Ég var að keyra, rétt nýbúinn að keyra fram hjá IKEA í föstudagsumferð og sultuslakur inn í helgina, og hann var með þau tíðindi að ég hefði nú verið hlutskarpastur í þessu útboði. Væri efstur á blaði. Með flest stig eða 86,58. Næstum ágætiseinkunn. Ég var furðu rólegur yfir þessum tíðindum og sagði líklega “já áhugavert, ekki hafði ég hugmynd um þetta”. Þetta var í lok nóvember 2024.

Þetta var föstudagssíðdegi og þannig séð hefði ég líklega átt að rjúka til og kaupa freyðivín til að skála við mína konu. Því mig langaði svo sannarlega til að vinna með Stafrænu Íslandi í að bæta stafræna þjónustu hins opinbera. Fúnksjón hafði verið svo til alla tíð að miklu leyti í verkefnum fyrir stofnanir og sveitarfélög. Þegar ég kom heim þá fóru þessi skilaboð að seitla inn. Já meinar, þetta er kannski það sem ég þarf til að taka af skarið og afhenda uppsagnarbréfið. Það væri jú stutt í mánaðamótin og aðventan handan við hornið. Kannski er Fúnksjón 2.0 bara málið frekar en að reyna að finna nýtt starf þar sem ég gæti gírað mig upp í fimm ný spennandi ár til að byggja eitthvað upp.

Frelsið er mér ótrúlega mikilvægt í lífinu. Ég læt illa að stjórn held ég. Vil sitja sjálfur við stjórnvölinn og fæ stundum leið á mannaforráðum þó þau fari mér ágætlega úr hendi. Þannig að líklega er ég fæddur til að vera með eigið eins manns ráðgjafafyrirtæki. Mér finnst frekar auðvelt að taka ákvarðanir en ég tek ekki stórar ákvarðanir nema með stuðningi minnar konu sem hefur reyndar alltaf stutt mig í öllu hvað sem á dynur (var þó smá treg þegar ég sýndi áhuga á starfi sem (lands)bókavörður). Við ræddum þetta auðvitað og ákvörðun var tekin sama kvöld. Til öryggis þá opnaði ég Gmailið og fékk staðfestingu á að þetta var ekki símaat hjá vini mínum.

Um leið og ég segi að ég sé háður frelsinu þá á ég erfitt með óöryggi þegar kemur að fjármálum. Og hvernig dettur manni þá í hug að velja sér “harkið” og kveðja hálaunastarf? Trúin á að Fúnksjón gæti gengið upp árið 2013 var svo mikil að hún flutti fjöll og rúmlega það. Fúnksjón gekk alltaf vel, ég sá þó sjaldnast langt fram í tímann en alltaf komu verkefnin og harkið var lítið. Ég fann að ég var kannski ekki alveg tilbúinn í að byrja á ný árið 2025 með engin örugg verkefni. Þess vegna var tilfinning svo góð að vita af þessum samningi sem ég átti vísan hjá Stafrænu Íslandi. Það fólst vissulega engin trygging í þessum samningi en tilfinning mín var að ég gæti líklega verið öruggur um kannski þriðjung af verkefnum sem ég þyrfti í hverjum mánuði (30 klst) á samningstímanum.

Ætlarðu að leyfa manninum þínum þetta?

Ég var mikið spurður auðvitað af hverju ég væri að fara? Vissulega notaði ég samning við Stafrænt Ísland sem góðu gildu ástæðuna og ég hefði þörf á að breyta til, fjandans bjallan muniði sem hringir í höfðinu á mér. Fólk óskaði mér til hamingju með ákvörðunina en ég gat nú lesið líka hugsanir sumra sem voru á þessa leið “hvaða vitleysisgangur er þetta hjá manninum?”. Það hættir enginn í opinberu starfi með yfir 2 m.kr á mánuði í laun (opinberar tölur, engin opinberun) og maðurinn á korter í eftirlaun (hey, það eru 10 ár eða svo). Konan mín fékk líka skilaboð frá áhyggjufullu fólki úr vinahópi og fjölskyldu sem spurði hreinlega: “Ætlarðu að leyfa honum þetta?!” Þau þekkja ekki mína konu. Hún veit að það er ekki gott að hafa mig heima pirraðan yfir að vera ekki að gera það sem ég hef mesta ánægju af. Ánægjan var því miður farin úr starfinu og ný áskorun þurfti að koma til. Ég held mögulega að innleiðing á málakerfi síðustu misseri hafi haft einhver áhrif á þessa líðan. En ég er ekki viss eða hvað?

Þegar maður hefur tekið ákvörðun um að færa sig í nýtt starf verður hugurinn fljótlega kominn á nýjan stað. Ég get fúslega játað að svo var. En ég gat ekki hafið opinbera markaðssetningu á Fúnksjón 2.0 þar sem ég var í öðru starfi. Þegar svo kom að því að ég vann minn síðasta dag hjá Hafnarfjarðarbæ var ég þó kominn með vilyrði um einhver verkefni. Orðið hafði spurst út. Traustir viðskiptavinir á árum áður voru búnir að banka upp á og ansi mörg möguleg verkefni í pípunum. Ég hugsað þá að mikið væri ég ég heppinn en hafði áhyggjur af því að þurfa að segja nei við verkefnum Stafræns Íslands því þegar maður er búinn að skrifa undir samninga um verkefni sem telja um 300 tíma þá verður ekki meiru bætt við næstu þrjá mánuði (fyrir ráðgjafa er geggjað að geta selt 100 tíma á mánuði vinni maður ekki óhóflega). Ég hugsaði: “Plís ekki hringja núna nema þið viljið fá mig í sumar eða haust.” En þær áhyggjur voru óþarfar. Síminn er ekki farinn að hringja úr fjármálaráðuneytinu.

Fljúgandi start og tóm hamingja

Fúnksjón 2.0 hefur fengið flugstart þessa fyrstu 100 daga. Tengslanetið, bæði gamalt og nýtt, hefur komið sér vel. Reynslan frá Hafnarfirði hefur skilað sér í frábæru verkefni með metnaðarfullu sveitarfélagi sem ég er gríðarlega spenntur fyrir. Æðsta menntastofnun landsins er einn af mínum uppáhaldsviðskiptavinum og þar er ég að vinna að metnaðarfullu verkefni í stefnumótun og greiningu. Ég er búinn að vinna greiningu á innri upplýsingamiðlun fyrir eitt flottasta ráðgjafafyrirtæki landsins með 600 starfsmenn og starfsemi í 7 löndum. Metnaðarfyllsta símenntunarfyrirtækið á markaðnum er í viðskiptum hjá mér. Stéttarfélag hefur leitað til mín um ráðgjöf. Stjórnarráðið hefur kallað á mig auk fleiri minni verkefna.

Það eru alger forréttindi að starfa við það sem ég hef ánægju af, í verkefnum sem ég veit að ég er góður í, þar sem ég get unnið á Spáni eða hvar sem er, þar sem ég get deilt skrifstofuhúsnæði með kláru og skemmtilegu fólki, þar sem ég fæ vel borgað og stjórna mínum tíma sjálfur. Ég hlakka til hvers vinnudags. Hann byrjar yfirleitt á heimaskrifstofunni svo morgunumferðin megi renna fram hjá á leiðinni til Reykjavíkur. Ég vinn flesta daga á skrifstofunni minni í Glæsibæ með útsýni yfir fagran Laugardalinn á 6. hæð. Fæ gott kaffi en of mikið af súkkulaði.

Þó nokkuð stór hluti af minni vinnu felst í að tala við notendur, þá sem nota þjónustuna, viðskiptavini, íbúa, starfsfólk, fólk úr öllum geirum samfélagsins, innflytjendur, eldri borgara, unglinga og fólk með fötlun. Það verða til einhverjir töfrar í þessum samtölum og ekki síður þegar ég fer að vinna úr samtölunum. Dreg saman niðurstöður. Fæ gervigreindina í lið með mér að draga saman kjarna úr löngum textum úr viðtölum, vinnustofum og netkönnunum. Ég fæ stundum nánast gæsahúð yfir þeim uppgötvunum sem ég fæ í starfinu. Tilfinningin að geta skilað virði til viðskiptavinarins með þessum gleraugum og reynslu sem ég hef öðlast er góð. Mér finnst ég skila viðskiptavininum alltaf virði og ég held að það sé gagnkvæmt. Virðið felst ekki síður í ráðgjöf um að benda á þá sem eru klárari og betri en ég í ýmsu sem viðskiptavinurinn þarf á að halda. Ég veit ekki allt. Loddaralíðan er ekki góð líðan.

Svo ég er góður. Í bili. En ráðgjafi eins og ég má aldrei sofna á verðinum. Ég þarf að minna á mig. Þess vegna varð þessi færsla til. Fúnksjón auglýsir ekki í Bændablaðinu eða í samlesnum. Auglýsingin mín er alltaf orðsporið. Verkefnin í dag eru auglýsingar fyrir verkefni morgundagsins.

Ég hlakka til að vinna með Stafrænu Íslandi og öllum öðrum framtíðarviðskiptavinum. Ég er fullviss um að ákvörðunin fyrir að hleypa Fúnksjón 2.0 af stað á ný var rétt. Takk fyrir viðtökurnar. Fyrir þær er ég auðmjúkur.

Næstu 1725 dagar undir flaggi Fúnksjón komið fagnandi!

Sjálfumyndin er af höfundi eftir síðasta vinnudaginn hjá Hafnarfjarðarbæ 7. mars 2025