Það er ekkert nýtt í því að segja að stafræn umbreyting snýst ekki um tækni heldur snýst hún um fólk, mannlega hegðun, vinnubrögð, ferla og breytingastjórnun.
Tæknin og kerfin koma svo til stuðnings þegar við höfum unnið í þessum mannlegu þáttum.
Til að þessir þættir vinni vel saman þarftu að stilla upp best fólkinu. Setja saman landslið sérfræðinga og þar er uppskriftin að árangri.
Stafræn umbreyting snýst ekki um að búa tli nýjan vef. Það getur verið eitt púslið í stórri mynd en réttlætir ekki að fyrirtæki geti sagt að þau séu í stafrænni umbreytingu.
Þegar ég kom til Hafnarfjarðarbæjar árið 2019 var sveitarfélagið með fínan vef og vefmál almennt í góðu standi. Verkefnið mitt sem sviðsstjóra var að umbreyta þjónustunni, ferlunum, hugsunarhætti og fá starfsfólk til að vinna með mér í að gera hlutina ekki eins og þeir höfðu alltaf verið gerðir.
Það er nokkuð óumdeilt að það hefur tekist vel með stafræna umbreytingu í Hafnarfirði síðustu ár. Það eru ekki bara mín orð. Önnur sveitarfélög líta til bæjarins sem fyrirmyndar. Mælingar sýna þetta einnig. Íbúar taka eftir breytingunni.
Það hefur verið ótrúlega ánægjulegt að fá að leiða þessar breytingar. En þær hefðu aldrei orðið ef ég hefði ekki fengið starfsfólkið með mér í lið og fengið aðstoð færustu sérfræðinga á markaði.
Frá byrjun var hinn almenni starfsmaður virkjaður í gegnum stefnumótun, ferlavinnu, prófanir og ekki síst að tilteinka sér ný vinnubrögð.
Innan sveitarfélagsins eru ekki fyrir margir sérfræðingar í stafrænni þróun en sannarlega öflugir. Teymið sem vinnur að stafrænni þróun er mjög stórt. Mér var tryggt nægilegt fjármagn til að sækja aðstoð utan frá.
Frá nánast fyrsta degi fékk ég aðkomu kollega í öðrum sveitarfélögum, sérfræðinga í ferlum, hönnun, forritun, upplýsingatækni, notendaupplifun, notendaprófunum, textasmíði, verkefnastjóra, ráðgjafa og fjölmargra sérfræðinga á öllum sviðum stafrænnar umbreytingar. Síðustu misseri hafa bæst við sérfræðingar í stafrænu vinnuafli og gervigreind.
Á löngum ferli hef ég eignast afar stórt tengslanet sérfræðinga sem ég vil vinna með og þeir vilja vinna með mér. Á köflum hefur mér liðið eins og landsliðsþjálfara. Verið í þeirri stöðu að geta valið sterkustu leikmenn í allar stöður, sókn, miðju, vörn og markvörslu. En aðallega sóknarþenkjandi leikmenn.
Við höfum skipt um nokkur (leik)kerfi. Losað okkur undan klafa ýmissa hugbúnaðarbirgja sem því miður halda of mörgum fyrirtækjum í gíslingu.
Í nær öllum fyrirtækjum er mikil sóun í gangi í upplýsingatækni og stafrænni þróun. Það eru víða of mörg kerfi í notkun sem styðja ekki við stafræna umbreytingu. Með góðri greiningu, bættum ferlum og gögnum getum við tekið ákvörðun um að hætta með kerfi, innleiða önnur og ekki síst innleiða nýja hugsun og vinnubrögð.
Ávinningurinn af því að fá Sigurjón Ólafsson, a.k.a. Fúnksjón, til liðs við sig í stafrænni umbreytingu er ekki síst reynslan sem býr að baki og hið afar stóra tengslanet sem er tilbúið í að spila næsta leik. Ég get tryggt að allar stöður verði mannaðar með færasta fólkinu.
Fúnksjón getur aðstoðað þig við að þarfagreina vefmálin og undirbúa nýjan vef. Þar er ég sannarlega á heimavelli. En ég get líka aðstoðað þig við stafræna umbreytingu og hjálpað þér og þínu fyrirtæki til að greina tækifærin, bæta ferla og draga rétta sérfræðinga að borðinu þannig að hægt sé að vinna að stafrænni umbreytingu á árangursríkan hátt og fá fólkið með sér í lið. Spilaðu með landsliðinu.